hjá Sjálfstæðisflokknum?
Var ekki kosinn ritari Sjálfstæðisflokksins sem á að annast eflingu innra starfs Sjálfstæðisflokksins?
Síðan ungir stigu stríðsdans með Áslaugu Örnu á Landsfundinum og gerðu hróp að Jóni Magnússyni og Gústafi Níelssyni sem vildu ræða málefni flóttamanna hafa almennir flokksmenn lítið orðið varir við ungliðana.
Maður hélt að prófkjörsbaráttan færi að hefjast síðar á þessu ári þar sem að þingkosningar séu fyrirsjáanlega á næsta ári? En Sjálfstæðisflokkurinn virðist helst starfa eins og eitthvert leynifélag eins og Frímúrarar eða Oddfellowar frekar en leiðandi hugsjónabandalag almennings á Íslandi. Vera stjórnmálaflokkur með hlutverk en ekki fínimannafélag á framfæri ríkisins eins og vinstri flokkarnir eru allir sem einn.
Eina lífsmarkið sem maður sér eru laugardagsfundir Sjálfstæðismanna í Kópavogi og á Akureyri og svo fundir í ellibelgjafélaginu hjá nafna Blöndal á miðvikudögum. Í ritaranum nýja heyrist ekki neitt né heldur nokkuð í Valhöll. Ungir Sjálfstæðismenn virðast vera orðnir að þjóðsögu og hafa líklega verið fluttir upp á Árbæjarsafn til varðveislu.
Sýnist þó ærið verkefni að reyna að endurreisa fjárhag flokksins með efldu styrktarmannakerfi. En flokkurinn er nánast gjaldþrota eftir glórulausan rekstur á undanförnum árum. Skyldu Sjálfstæðismenn ætla sætta sig við að Valhöll verði einhvern tímann boðin upp og seld vegna óbærilegrar vaxtabyrði? Sumir óttast að þangað stefni ef ekki verður ráðin bót á fjáröflunarvandamálinu.
Erlingur heitinn Hansson, sem var 102% Sjálfstæðismaður í Kópavogi, lagði ávallt áherslu á að orðið félag þýddi það sem í því fælist. Menn hittust og legðu fé sitt saman til að gera eitthvað meira en þeir gætu einir og sér. Þess vegna ættu félög að starfa á ábyrgð félagsmanna eingöngu en ekki vera á opinberu framfæri eins og gustukafólk, aldraðir, sjúkir og öryrkjar.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í rúst en flokkurinn er ekki að tala við einn né neinn að því að sumum finnst. Ég held að þeim fari óðum fækkandi sem hafa heyrt eitthvað um sjálfstæðisstefnuna hvað þá að kunna hana utan bókar eins og margir gerðu hér í gamla daga.
Þó svo að formaðurinn sé að standa sig ágætlega sem fjármálaráherra þá er hann ekki í neinu daglegu trúboði fyrir flokkinn. Og varaformaðurinn ekki heldur. Kannski eru það heldur ekki þeirra verkefni miðað við aðstæður. Til þess eiga fótgönguliðarnir frekar að vera og sækja fram í grasrótinni.
Hvenær ætlar flokkurinn eiginlega að fara að leita sér að fylgismönnum? Eftir kosningar? Hvenær ætlar hann í bardagann við Píratana sem eru búnir að stela af okkur öðrum hverjum kjósanda? Fletta ofan af þeirra tómu tunnum og sýna fólki inn í þeirra sálarkeröld? Man enginn lengur eftir Hannesi Hólmsteini sem ungur hjólaði einn síns liðs í stórstirni kommana og malaði þá mélinu smærra? Dettur þessu fólki í fulltrúaráðum, landssamböndum, stjórnum, nefndum og ráðum ekki neitt í hug nema að taka sig út á ljósmyndum á tyllidögum. Hvar er hann gamli Sjálfstæðisflokkurinn minn? Er það ofurtrúin á fésbók og netmiðlun sem fer svona með okkur?
Ef forystuliðið í Sjálfstæðisflokknum fer ekki að hysja upp um sig buxurnar og gera eitthvað þá verður hann ekki merkilegur ummáls þingflokkurinn eftir kosningarnar 2017. Ég hélt þó að fjöldinn í honum skipti meira máli en fegurðin í pólitík?
Ég skil ekki hugsjónabaráttu sem gengur út á grafarþögn. Ég hélt að það þyrfti að berjast í pólitík. Pólitík er ekki samræðupólitík eða umræðupólitík heldur átök. Að minnsta kosti skilur Dagur B. Eggertsson og hans menn í Borginni þetta. Þeir eru í bardaga við allt og alla hvern einasta dag og þiggja aldrei frið ef kostur er á ófriði. Ef nokkuð er það helst að þá Dag Bergþóruson og Hjálmar grimma skorti mótstöðumenn til að finna kröftum sínum viðnám, slík er vígfimi þeirra og baráttugleði.Þetta skortir okkur ömurlega allt í Sjálfstæðisflokknum um þessar mundir.
Gulli gamli ritarinn lét unga fólkinu góðfúslega eftir sviðið á Landsfundinum. Gaf því óbeðinn tækifæri til að sanna sig. Gulli var annars góður ritari og lagði sig fram í því starfi. Við væntum á Landsfundinum vissulega aukningar og nýrra tíma í því starfi þar sem skortur hefur verið á ungum kjósendum í Sjálfstæðisflokknum. En það sem af er síðan hefur þetta látið á sér standa.
Nýi ritarinn í Sjálfstæðisflokknum fer áreiðanlega alveg að byrja og þá skuluð þið bara sjá hvar hann Davíð Pírati kaupir ölið.