var í Kópavogi á fjölmennum fundi Sjálfstæðismanna í morgun.
Vigdís fór yfir skýrsluna sem við hana eina er nú kennd. En áður útskýrði hún af hverju skýrslan væri nú kennd við hana eina. Það væri ekki af því að Gulli og Sjálfstæðismenn í nefndinni stæðu ekki órofa þétt að baki hennar,sem þeir hafa lýst yfir, heldur af því að nú væri komið að því að hún hefði orðið að ráða sér lögmann til að fást við þær svívirðingar og árásir sem afmarkaður hópur embættismanna og fjölmiðlunga, að mestu sá sami og var í vörninni fyrir Iceasave og Steingrím J. Sigfússon í öllum bankamálum. Þetta væri réttartæknilegs eðlis að hún væri nú ein skrifuð fyrir skýrslunni.
Í ljósi þessa er fróðlegt að lesa hvað Kolbrún Bergþórsdóttir getur sett saman í leiðara DV í dag:
"...Þar var fátt nýtt að finna, annað en svívirðingar um háttsetta embættismenn sem voru nánast sakaðir um landráð. Nefndin hafði ekki hirt um að gefa þeim tækifæri til að svara fyrir sig og útskýra sína hlið, enda hefði það skemmt hina fyrirframgefnu niðurstöðu. Þegar dylgjum í skýrslunni um ákveðna menn var mótmælt sýndi varaformaður nefndarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, þann dug að stíga fram og biðjast afsökunar á hinu miður smekklega orðalagi. Úr varð að orðalaginu var mikið breytt. Þetta telst sannarlega til tíðinda en er örugglega ekki fréttin sem formaður fjárlaganefndar hefði helst viljað heyra í kvöldfréttum.
Orð forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, um að skýrslan væri ekki skýrsla í skilningi þingskapa Alþingis, voru örugglega ekki heldur til að gleðja hjörtu meirihluta fjárlaganefndar. Vigdís Hauksdóttir gat ekki hamið gremju sína og kallaði forseta Alþingis „aumingja manninn“ í útvarpsviðtali.
Málið var orðið svo vandræðalegt að meirihluti fjárlaganefndar sá ekkert annað til ráða en að hlaupa frá málinu, þar á meðal helsti samstarfsmaður Vigdísar, Guðlaugur Þ. Þórðarson, sem hefði betur aldrei lagt upp í þennan misráðna leiðangur. Skýrslan er nú nefnd eftir Vigdísi Hauksdóttur, sem hlýtur að teljast eðlilegt, enda sérstakt gæluverkefni þingmannsins.
Allt í kringum þessa skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, sem nú nefnist Skýrsla Vigdísar Hauksdóttur, er farsakennt og til háðungar fyrir þá sem að henni stóðu. Ásakanir um hótanir embættismanns í garð þingmanns fjárlaganefndar hljóma ekki sannfærandi. Vissulega er það ekki skynsamlegt af embættismanni að setja sig í samband við þingmann og gera honum grein fyrir að fullyrðingar í skýrslunni kunni að varða við lög. Það er hins vegar hæpið að fullyrða að slík orð jafngildi hótun, það mætti allt eins segja að embættismaðurinn væri að segja þingmanninn nokkuð sjálfsagða hluti. Viðbrögð þingmannsins eru því full dramatísk.
En þau eru kannski í takt við stemninguna á fundum meirihluta fjárlaganefndar, þar sem ekki er ólíklegt að menn hafi verið að mæla vitleysuna upp í hver öðrum. Niðurstaðan er eins og við vitum: enginn tekur mark á skýrslunni enda varla hægt þar sem hún er að mætra manna mati engin skýrsla."
Það er erfitt að komast lengra í lygum og rangfærslum heldur en Kolbrún Bergþórsdóttir afrekar í ekki lengri pistli í þessu málgagni sannleikans sem DV er í hugum fólks.
Þetta er ágætt sýnishorn af því sem Vigdís þarf að þola af hendi klíkunnar sem ræðst að henni og skýrslunni. Þetta lið má ekki til þess hugsa að orð og athafnir Steingríms J. Sigfússonar séu ræddar í ljósi þeirra svakalegu afleiðinga sem þær höfðu fyrir íslensk heimili. En maðurinn framdi ítrekuð lögbrot þegar hann gaf eigur íslenska ríkisins og veitti vogunarsjóðum ótakmarkað skotleyfi á íslenskan almenning og fyrirtæki.
Vigdís flutti sitt mál af miklum skörungsskap og fór vel yfir einstaka þætti verka Steingríms J. í vinstri stjórninni. Setti hroll að fundarmönnum við að hlusta á suma þætti málsins, svo gengdarlaust og grímulaust þessar aðgerðir gengu gegn hagsmunum ríkisins og almennings. Og voru þó aðeins málin sem snertu föllnu viðskiptabankana til umfjöllunar. Önnur skelfingasaga er svo af athöfnum mannsins hvað varðar sparisjóðina Byr og Keflavíkur þar sem erfitt er að skýra það milljarðatjón sem þar varð nema útfrá hreinni heimsku mannsins fremur en einbeitts brotavilja.
En Steingrímur J. hefur auðvitað stjórnarskrárvarinn rétt til að hugsa eins og hann gerir. Þar er ekki bannað að hafa ákveðnar skoðanir. En þetta sýnir bara hinsvegar hve hættulegt er að fela óvitum að leika sér með eldspýtur og bensínbrúsa.
Ekki er mörgum blöðum að fletta um það, að þingframboð Steingríms J. að þessu sinni er beinlínis til að halda uppi vörnum og málþófi um öll þessi mál sem hann snerta. Hann verður sinn eigin varðhundur á Alþingi og mun áreiðanlega ná árangri þar sem Vigdís Hauksdóttir ætlar ekki í framboð. Var það margra manna mál á fundinum að það væri meiri eftirsjá í henni heldur en margra þeirra þingmanna sem hafa dregið sig til baka frá stjórnmálum. Líklega tekst Steingrími og áðurnefndri baráttuklíku hans að eyðileggja málið og svæfa það svefninum langa.
Vigdís svaraði mörgum fyrirspurnum fundarmanna óhikað og af sannfæringu. Ekki einn einasti fundarmanna í þessum húsfylli dró neina þætti í máli Vigdísar í efa.
Þessi fundur var hinn ágætasti í alla staði og skildi menn eftir í talsverðu uppnámi yfir veraldarinnar vondsleik. En þarna var fólk sem hafði frá ljótum sögum að segja sem fórnardýr í fyrstu persónu gerða Steingríms J. Sigfússonar þann tíma sem hann sat á stóli fjarmálaráðherra og fór með lög og rétt að eigin geðþótta. Skoðanakönnun sýndi að 95 % aðspurðra vildi ekki fá Steingrím Jóhann aftur á stól fjármálaráðherra og gæti það bent til þess að kjósendur hugsuðu sumir eitthvað þó margir séu vantrúaðir á það miðað við aðrar skoðanakannanir um fylgi flokka.
Vigdís kom sá og sigraði á húsfyllisfundi Sjálfstæðismanna í Kópavogi í morgun.