Ég held því fram að Íslandsmið myndu strax í dag þola 400.000 tonna þorskveiði til næstu 5 ára án þess að gengið væri á stofninn.
Ég byggi þetta á viðtölum við sjómenn enda hef ég engin önnur tæki til að mæla með. Þeir segja núna flestir að aldrei hafi verið eins vitlaus fiskur á Íslandsmiðum og nú. Það fáist bara ekki kvóti til að fá að veiða. Við bara veiðum ekki fiskinn vegna kvótakerfisins. Hann geymist þá örugglega í sjónum skv. kenningunni. Og kenningarnar eru alltaf réttar? Ég þekki samt mann sem er ósammála þessu. En það er ekkert hlustað á hann.
Auðvitað má deila um hvort það eigi að veiða fiskinn nema í nægilega litlum mæli til að verðið haldist hátt og samkeppnin komi ekki til. Einokun gefur alltaf hæstu EBITU.
Þegar ég var strákur var soðningin það ódýrasta sem fólk keypti í matinn. Kjöt var á sunnudögum. Nú er víst fiskur jafn dýr og dýrasta kjötmeti. Eitthvað hefur breyst.
Ég dreg þá ályktun af þessu öllu að kvótanum sé haldið niðri undir yfirskyni vísinda til þess eins að þjóna sægreifunum og bönkunum til að halda uppi verði á fiski og sjá til þess að veðin í honum rýrni ekki.
Svo er kvakað um hættuna á rányrkju og þess háttar þegar nú er miklu meiri fiskur í sjónum en þegar tjallinn var að veiða hér 400.000 tonn upp í landsteinum.Það sé alveg hægt að geyma fiskinn í sjónum því íslenskur fiskur syndi ekki af landi brott, m.a. vegna þess að hann veit að hann er veðsettur Landsbankanum.
Þó að þetta sé kannski allt ein blekking þá þýðir ekkert að tala um það vegna þess að allt svona tal er kveðið niður af varðhundum kerfisins sem búa yfir stórasannleika og ríkisstofnunum með reiknigetu til að finna æskilegar útkomur. Og víst er að útgerðin gengur aldrei betur en nú. Svo er eitthvað að?
En rétt verð á kvóta fæst aldrei fram, því að er nefnilega alltaf vitlaust gefið þegar spilað er við ríkið um kvóta, landbúnað, atkvæðisrétt eða lífeyrissjóði.
Loðvík fjórtándi hefði sagt að hið rétta verðið á kvótanum væri það sem hann segði sjálfur. Og er það bara ekki svoleiðis þó Humpfrey sé kominn í stað Lúlla sáluga?