Quantcast
Channel: Halldór Jónsson
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2922

Frábær Styrmir

$
0
0

í Mogganum í dag.

Hann stingur upp á að hætta aðskilnaðarstefnunni sem hér ríkir í málefnum öryrkja og aldraðra.

Hann segir:

"Orðið aðskilnaðarstefna var jafnan notað um þá stefnu hvítra manna í Suður-Afríku að skilja fólk að eftir hörundslit. Þeir sem voru hvítir á hörund voru öðrum æðri.

Nelson Mandela braut þá aðskilnaðarstefnu á bak aftur. Þegar ég var námsmaður við Háskóla Íslands fyrir hálfri öld var hann talinn einn af hættulegustu hryðjuverkamönnum sem þá voru á ferð. Áður en hann dó, háaldraður, var hann við- urkenndur sem einn af mestu stjórnmálaleiðtogum 20. aldarinnar.

Þetta orð var yfirleitt ekki notað, þegar lokabarátta blökkumanna stóð yfir í Bandaríkjunum snemma á sjötta áratug síðustu aldar. Morðið á John F. Kennedy varð til þess að eftirmanni hans, Lyndon B. Johnson, tókst að koma í gegn tímamótalöggjöf á Bandaríkjaþingi um réttindi þeirra sem eru svartir á hörund en ekki hvítir. Það var aðskilnaðarstefna, sem ríkti í raun, sérstaklega í suðurríkjum Bandaríkjanna fram yfir miðja síðustu öld.

Það má líka velta því fyrir sér hvort þetta orð megi ekki nota yfir það viðhorf að fólk sem hefur önnur trúarbrögð en almennt gerist á Vesturlöndum sé hættulegra en annað fólk og óæðra í einhverjum skilningi. Kannski á einhver „Nelson Mandela“ eftir að rísa upp í röðum múslíma til að sýna okkar á Vesturlöndum fram á að það fer hvorki eftir hörundslit né trú hverjir eru hættulegir og hverjir ekki.

Það væri alltof langt gengið að halda því fram að hér á Íslandi hefði ríkt á okkar tímum aðskilnaðarstefna í þeirri alvarlegu mynd sem hér hefur verið vísað til en það má velta því fyrir sér hvort hér sé samt sem áður til í einhverri örmynd vísir að þeim hugsunarhætti sem leiðir til þess að fólki sé skipt upp í hópa eftir einhverri skilgreiningu, m.ö.o. að hér sé til „aðskilnaðarstefna“ innan gæsalappa. Er ekki slíkur hugsunarháttur á ferð, þegar við tölum um að hann eða hún sé öryrki?

Getur verið að orðið sjálft lýsi viðhorfi liðins tíma? Af hverju gefum við hópi þjóðfélagsþegna sem þurfa á aðstoð að halda svona samheiti? Er ekki í því fólgin ákveðin „aðskilnaðarstefna“? Er einhver sérstök þörf á því að skilja þá frá öðrum þegnum samfélags okkar með slíku samheiti?

Reyndar er annar hópur fólks gjarnan settur í sama flokk og öryrkjar í umræðum á opinberum vettvangi. Það eru hinir öldruðu. Í opinberum umræðum er gjarnan talað um „aldraða og öryrkja“, sem njóta saman ýmiss konar sérréttinda. Af hverju er fólk skilgreint eftir aldri?

Og af hverju eru þau aldursmörk dregin við 67 ára aldur eða 70 ára aldur? Eru þær rauðu línur ekki löngu úreltar? Má ekki færa sterk rök fyrir því að nú á tímum sé áttrætt það sem sjötugt var fyrir nokkrum áratugum, einfaldlega vegna þess að fólk lifir lengur og er við betri heilsu?

Felst ekki í þessum rauðu línum viss tegund af „aðskilnaðarstefnu“? Þessar vangaveltur eru settar fram vegna þess að það er mikið rætt um málefni aldraðra og öryrkja á opinberum vettvangi og sennilega verða fjárhagsleg hagsmunamál þessara þjóðfélagshópa á dagskrá kosningabaráttunnar á næstu vikum.

En það má færa rök að því að það sé tímabært að færa þessar umræður yfir á nýtt stig. Það eru ekki bara efnisleg rök fyrir því með tilvísun í betri heilsu og langlífi heldur líka bein fjárhagsleg rök út frá heildarhagsmunum samfélagsins að afnema þessa „aðskilnaðarstefnu“ sem byggist á aldri eða skertri vinnugetu.

Eftir svo sem tvo áratugi verða um 18% íslenzku þjóðarinnar 65 ára og eldri. Það er ekkert vit í því að setja þessa aldurshópa með lagaboði eða ákvæðum kjarasamninga út af vinnumarkaði og ætlast til að þeir sem yngri eru vinni fyrir þeim.

Kannski má segja að Vesturlandaþjóðir hafi haft efni á slíkum „lúxus“ fram að þessu en flest bendir til að sá tími í lífi þessara þjóða sé að renna sitt skeið á enda. Fjárhagslegir yfirburðir þjóða í okkar heimshluta byggðust að verulegu leyti á því að þessar þjóðir komu sér í þá aðstöðu í skjóli vopnavalds að geta látið greipar sópa um auðlindir annarra þjóða (eins og Bretar gerðu á fiskimiðunum hér við land).

Það má jafnvel líkja flóttamannastraumnum frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku við það að fátæka fólkið í heiminum sé að storma inn um borgarhlið hinna ríku eins og Parísarbúar gerðu fyrir bráðum 230 árum.

Það er kominn tími til að hin aldna sveit Íslendinga rísi upp og segi: Við viljum ekki að það sé ódýrara fyrir okkur í strætó og sundlaug. Við viljum jafnrétti. Við viljum vera fullgildir þjóðfélagsþegnar þar til yfir lýkur. Við viljum taka fullan þátt í þjóðfélaginu ekki síður en aðrir.

Það getur meira að segja verið að hinir öldruðu geti sagt með nokkrum sanni: Við erum betur til þess fallin en þið að stjórna þessu landi af því að við búum yfir þroska, sem hinir yngri hafa enn ekki öðlast. Og vísa til þess að Konrad Adenauer var 73 ára gamall, þegar hann varð kanslari Vestur-Þýzkalands og 87 ára þegar hann lét af því starfi. Að Winston Churchill var 66 ára, þegar hann tók að sér að leiða Breta í heimsstyrjöldinni síðari og 81 árs, þegar hann lét af því embætti á síðari valdatíma sínum. Að De Gaulle var 69 ára, þegar hann tók við forystu Frakka á ný og nær áttræður, þegar hann lét af embætti. Og þannig mætti lengi telja nær okkur í tíma. Er ekki kominn tími til að ræða þessi mál á nýjum nótum? "

Þetta finnst mér frábær hugsun hjá ritstjóranum. Koma okkur út úr þessum eilífa kassa og þrasi sem hefur ekki skilað neinu nema framfærslufóðri fyrir allt of marga krata í bákninu.

Allir heilbrigðir á almennum markaði sem ná 70 ára aldri skulu eftir það hafa tryggð mánaðarlaun  frá ríkinu eins og þeir höfðu sem þau framtalin vinnulaun,  sem gjöld voru borguð af sem meðaltal síðustu 10 ára. Raunveruleg laun sem menn afla sjálfir dragast frá ríkispeningunum. Enginn rekinn heim fyrr en 70 ára. Allir greiða óbreytta skatta og gjöld af brúttóinu. Lífeyrissjóðirnir borga ríkisframlagið meðan þeir endast.

Þeir sem lifðu á eignatekjum síðustu 10 árin gera það áfram séu þeir ekki verr komnir 70 ára en meðaltalið segir.Deilan um gamla fólkið og skerðingarnar er þar með afgreidd.

Opinberir starfsmenn fara bara á sín réttindi 70 ára og fá ekkert umfram það. Sú deila og samanburður afgreidd og óréttlætið líka.

Langtíma öryrkjar fara á einhvern launaflokk og taka laun eftir því. Ríkið borgar. Deilan um öryrkjana afgreidd.

Allt kommerí landsins afgreitt. VG, Samfó og allt þetta vinstra bull afgreitt því þeir eiga enga hugsjón eftir þar sem þeir eru búnir að missa glæpinn. Kratarnir á Tryggingastofnun missa einhverjir vinnuna því þeir hafa engin verkefni eftir þetta.Líka þeir sem vinna við útreikninga bóta á skattstofunum. Engar framfærslubætur verða greiddar framar. Allt óréttlæti búið.

Ég held að Styrmir hafi þarna komið fram með merkustu tillögu í þjóðmálum sem fram hefur komið lengi.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2922