er til umfjöllunar í Fréttatímanum í dag. Það er athyglisvert vegna þess að það stangast á við þær staðalímyndir sem íslenskt ráðafólk hefur gert af þessari starfsgrein, sem oft er nefnd sú elsta í heimi. Löggjöf okkar hefur verið sniðin að því að kaupandinn sé að misnota seljandann sem sé neyddur til síns hluta af einhverjum slæmum ástæðum.
Svo segir í blaðinu:
"Kona um fimmtugt, sem varð öryrki eftir alvarlega líkamsárás, tók þá ákvörðun í vor að fara að stunda vændi til að framfleyta sér og geta hjálpað börnum sínum áfram í lífinu. „Það er stór hópur kvenna í minni stöðu, það er miklu meira um þetta en fólk gerir sér almennt í hugarlund,“ segir hún þegar hún tekur á móti mér með brosi, þar sem hún býr, í venjulegri blokkaríbúð í úthverfi, lítil, dökkhærð með opið og tjáningarríkt andlit....
...Hún er með háskólamenntun og segist hafa haft ágætlega launuð störf fyrir líkamsárásina. Það var ekki fyrr enn í vor að hún fór að reyna fyrir sér í vændi:
„Ég tek tuttugu þúsund fyrir skiptið,“ segir hún. „Yfirleitt tekur þetta um korter til tuttugu mínútur, stundum vilja þeir vera aðeins lengur og ég leyfi það. Ég hitti þá bara á dagvinnutíma, aldrei á kvöldin eða um helgar. Með því að afgreiða um 20 til 30 menn á mánuði hef ég um hálfa milljón í tekjur, skattfrjálsar.“
„Ég get hjálpað börnunum mínum í lífinu og líka föður mínum sem er mikill sjúklingur. Ég hef ekkert samviskubit, að gera það sem ég geri. En mér finnst auðvitað ógeðslegt að vera sett í þessa stöðu. En ég gat ekki lifað af fjörutíu þúsund krónum á mánuði eins og mér var uppálagt að gera.
Ég get ekki unnið fulla vinnu en hálfa vinnu myndi ég vel ráða við en þá taka þeir bæturnar. Og hver ætlar líka að ráða mig í hálfa vinnu eftir að hafa verið frá vinnu í mörg ár. Það er nógu erfitt að fá vinnu þegar maður er orðinn rúmlega 50 ára.
Ég var einfaldlega föst í ömurlegri fátæktargildru og skömmin var meiri en þegar ég fór að stunda vændið. Ég gat ekkert gert nema sökkva dýpra og dýpra.“
...Hún segist ekki hafa lent í ofbeldisfullum mönnum. „Það eru meira yngri stelpurnar sem lenda í því. Þær sem eru í neyslu og selja sig til að fjármagna það. Ég er með fastakúnna, sömu mennirnir koma aftur og aftur, þeir vilja oft spjalla og létta þannig á sér. Ég reyni að vera allt í senn, hóran, sálfræðingurinn og vinur þeirra. Og ég hef ekkert samviskubit, enda held ég að ég hafi bjargað mörgum hjónaböndum. Það kemur fyrir að ég vil ekki hitta menn aftur. En það er yfirleitt vegna þess að mér hefur fundist þeir óþrifalegir eða fráhrindandi....
...„Nei, ég er ekki fórnarlamb.
Ég neita í raun og veru að vera fórnarlamb og láta þvinga mig til að lifa í þeirri niðurlægingu að þurfa að neita mér um allt,“ segir hún.
Hún segist heldur ekki hafa verið félagslega einangruð þótt það sé oft og tíðum fylgifiskur örorkunnar:
„Nei, ég á marga vini og kunningja og stóra fjölskyldu, ég var ekkert einmana en margir öryrkjar einangrast auðvitað félagslega. Það er ömurlegt að þurfa að selja sig til að komast af en þetta er bara miklu algengara en fólk heldur. Frá mínum bæjardyrum séð, þaðan sem ég er núna, virðist um helmingur þjóðarinnar vera að gera það sem ekki þolir dagsins ljós. Fólk er með sérstakar Facebook-síður til að skiptast á læknadópi og kaupa vændi. Karlar úr öllum stéttum eru að kaupa sér vændi og það eru læknar á háu kaupi sem skrifa upp á læknadópið.
Ég fer til hárgreiðslukonunnar í hverfinu og fæ mér klippingu og borga með peningum svo hún geti svikið undan skatti. Það eru fæstir í þessu þjóðfélagi alveg sjúklega heiðarlegir og kerfið er að molna í sundur. Ég er kannski komin á jarðsprengjusvæði með því að tala um þetta. Það er skrítið en ég upplifi einhvern náungakærleika í vændinu."
Þarna hafa menn það. Kona velur á milli örbirgðar og bjargarleysis og þessarar þjónustu. Af hverju gerir þjóðfélagið þetta glæpsamlegt? Þjóðverjar og margar aðrar þjóðir gera það ekki. Reyna heldur að vernda og hjálpa þeim sem eru reiðubúnir að gera þetta frekar en að líða annað verra?
Er ástæða til að láta einhverjar sjálfskipaðar kellingar stjórna þessum málaflokki? Er ekki hægt að líta raunsætt á málin? Reyna að skilja ástæðurnar og láta lögin vernda þá sem ekkert hafa brotið af sér annað en þetta?
Af hverju að reka þetta undir yfirborð jarðar með reiddu lagasverð? Hrinda fólki í hendur glæpamanna og fjárkúgara vegna ranghugmynda fólks sem virðist ekki þekkja mannlegt líf? Á ekki frekar að veita vændi lagavernd þar sem það stuðlar ekki að óbætanlegri óhamingju eða skaða á líkama eða sál?
Vændi er staðreynd. Vændi uppfyllir þörf. Margir segja að það sé líka fyrirbyggjandi starfsemi eða félagslegt úrræði sem bæti böl án þess að bíði annað verra.Er þetta ekki íhugunarefni á þessum miklu hinsegin dögum, sem blása þetta hinsegin út hugsanlega langt út yfir það hinsegin sem í boði er?