Quantcast
Channel: Halldór Jónsson
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2922

Ríkið er í okkar höndum

$
0
0

segja félagsmenn Eflingar og boða ótímabundnar verkfallsaðgerðir.

Opinberir starfsmenn taka forystuna á vinnumarkaði sem eðlilegt er þar sem þeim fjölgar um sömu þúsundir og störfum á almennum markaði fækkar.

Ég átti því láni að fagna að fá lífsbjörgun úr hendi sjúkraflutningamanna úr röðum slökkviliðsins. Ég fæ ekki séð að þetta fólk sem nú hefur boðað verkfall geti farið mínútu frá án þess að mannslíf muni liggja við. Og svo er raunar um alla hina frábæru  heilbrigðisstarfsmenn sem ég hef kynnst. Við getum ekki án hvers annars verið. Allir eru nauðsynlegir á einhvern hátt nema ég auðvitað úreltur vesalingur sem fátt á annað en minningar um veröld sem var.

Getur nokkur staðið á móti kröfum opinberra starfsmanna um kjaraleiðréttingar? Er Ríkisvaldið nægilega megnugt til að geta tekið af skarið nema eftir langar og strangar hörmungar?

 Eru þessar kjaraaðgerðir þáttur í pólitískri baráttu öðrum þræði? Hvað leggja til dæmis þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar til? Hvað vilja þeir gera?  

Eru Lífskjarasamningarnir á almennum markaði ekki greinilega fyrir bí og að engu hafandi? Verður þetta ekki  allt að rífa upp og leiðrétta þennan og hinn sem trúir því að tuga prósenta launahækkun á einu bretti séu meiri kjarabót en gengishækkun? Er Ríkisvald okkar  einhvers megnugt ef allt fer í hnút?

1971 tóku stjórnvöld meðvitaða ákvörðun um að hækka allt kaup í landinu um 10 % .Og til viðbótar um um önnur 10 % með stórkostlegri félagslegri aðgerð um styttingu vinnuvikunnar sem auðvitað þá eins og nú var klædd í glanspappír hagræðingar sem ekkert myndi kosta.

Vinnufriður hélst og við tók tveggja áratuga óðaverðbólga, linnulausra kjaraleiðréttingasamninga og gengisfellinga. Þessu linnti ekki fyrr en með þjóðarsáttarsamningum og síðan þá hefur kaupmáttur stöðugt aukist að raungildi í stað þess að minnka.

Er nokkur leið út úr þeim ógöngum sem framundan eru? Er einhver í samningsstöðu þegar miðað er á hann byssu? 

Verður hægt að semja um eitthvað annað en að ganga að öllum kröfum verkalýðshetjanna? Verður Sólveig Anna ekki að  fá fullnægingu í stéttabaráttunni við auðvaldið áður en svo getur orðið. Verkfallsaðgerðir og verkfallsvarsla  eru svo dýrðleg barátta að hún þarf lágmarkstíma fyrir  þúsund blóm að blómstra? 

 Einhverjar vikur verða líklega að líða þangað til að fólk hefur fengið nægju sína. Verður ekki fólk  að fá útrás fyrir upppískaða og réttláta reiði sína og Sósíalistaflokkurinn verður að sanna sig í stéttabaráttunni og koma Gunnari Smára og hans nótum  á þing?  Hvernig getur slíkt orðið öðruvísi án sigra eftir hina góðu baráttu?

Þjóðverjar gleyma ekki verðbólgunni 1929 þegar póstburðargjaldið fór úr hálfu marki í 500 milljónir. Þess vegna er beinum kauphækkunum ávallt haldið í lágmarki í því landi vegna óttans við söguna.Íslendingar læra hinsvegar aldrei af reynslunni því þeir gjöra alla hluti nýja. Við vitum auðvitað hvert stefnir með því að selja þessu fólki sjálfdæmi eða því sem næst.En hvað skal gera?

Höfum við þrek til að setja þjóðfélagið í margra vikna uppnám? Íslendingar hafa aldrei haft úthald í nema nokkurskonar skemmtiverkföll til skamms tíma með mjólkursprelli við Geitháls ef svo ber undir. Er ekki  ávallt látið undan fámennum hópum eins og flugumferðarstjórum og ljósmæðrum og svo æðstu stjórnendum og Alþingismönnum? Allir verða að fá sína leiðréttingu?

Ríkið er í okkar höndum segja Sósíalistarnir. Þannig er það í Venezuela til dæmis þó að  það gildi auðvitað ekki hér. Hér er stéttbaráttan skemmtiskokk þar sem frægir sigrar vinnast áður en næsta leiðréttingalota hefst.

Og Ríkið verður aftur í okkar mislögðu höndum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2922