kollega skrifar grein í Fréttablaðið sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á.
Við sem höfum efasemdir um framhald gagnsemi EES samningsins erum ekki mjög fyrirferðarmiklir í þjóðlífinu. En við höfum efasemdir um samninginn þó að fáir virði okkur viðlits.
EES samningurinn er að einangra Ísland
"Þegar Evrópusambandið var stofnað hóf það f ljótt að vernda sinn iðnað fyrir samkeppni utanað. Fyrst var hugsað um grunnframleiðslu eins og stál og kol en smám saman fjölgaði starfsemi sem settir voru múrar um til að verjast samkeppni. Lengi var beitt tollum og gjöldum en með tímanum hefur það breyst vegna WTO og alþjóðasamninga sem hafa náð að lækka tolla í milliríkjaviðskiptum. En ESB hefur í staðinn stöðugt bætt við kvöðum á viðskipti og er nú svo komið að tæknilegar og stjórnsýslulegar kröfur eru orðnar helstu viðskiptahömlur ESB.
Nútíma verslunarhöft
Með EES samningnum gekkst Ísland undir margs konar regluverk og yfirráð ESB á viðskiptum. Á Brusselsku er talað um „gæðakröfur“, „samræmingu“, „viðurkenningu“, „leyfi“, „vottun“, „merkingar“ o.s.frv.
Orðskrúðið felur á bak við sig verslunarhöft nútímans. Þau gilda um vörur sem leyfilegt er að selja í ESB (og á Íslandi eða EES).
Höft ESB/EES loka Íslandi fyrir margs konar vörum af alþjóðamarkaði, fækka valkostum, og hækka verð hér.
EES-regluverkið hefur líka hamlandi og kostnaðaraukandi áhrif á bæði framleiðslu og útflutning héðan.
Það er farið leiða til þess að íslenskum fyrirtækjum er erfiðara að sækja út á alþjóðamarkað með sínar vörur sem er þeim mörgum lífsnauðsyn vegna smæðar Íslands.
Höft og reglubyrði ESB hafa með öðru leitt af sér að hlutur ESB af heimsviðskiptunum minnkar stöðugt. Núverandi ESB-lönd stóðu fyrir 30% heimsverslunarinnar um 1980, nú er hlutfallið komið í 15% og fer minnkandi.
„Innri markaður“ ESB verður stöðugt minna áhugaverður. ESB-lönd eru ekki lengur leiðandi í nútímatækni.
EES gildir ekki í mestu viðskiptalöndunum
Eftir að EES skall á fyrir 25 árum hafa viðskipti við áður mestu viðskiptalönd Íslands orðið stöðugt erfiðari vegna yfirráða ESB hér.
Mikilvægustu viðskiptalönd Íslendinga fyrir EES, meðan verslunarfrelsi var meira, Bandaríkin, Austur-Asíulönd og Rússland, er orðið erfiðara og kostnaðarsamara að hafa milliliðalaus viðskipti við þó vörur þar séu oft gæðameiri og ódýrari en í ESB.
Viðskipti við A-Asíu og Bandaríkin fara oft í gegnum ESB og hlaða utan á sig óþörfum milliliðakostnaði.
Eitt mesta viðskiptaland Íslands í aldanna rás, Bretland, er að bætast við alþjóðamarkaðinn sem þýðir að þá koma höft EES á verslun Íslendinga við Bretland.
Ísland að lokast inni
Ísland er að lokast meir og meir inni í viðskiptamúravirki ESB.
Ísland er með fríverslunarsamninga við mörg lönd og þar á meðal ESB samkvæmt eldri samningi en EES. Sá samningur er enn í fullu gildi þó farið sé með það sem leyndarmál.
Og Ísland er einnig með viðskiptasamninga við mörg lönd bæði á eigin vegum og með EFTA.
Þeir fríverslunarsamningar koma að vísu ekki að fullu gagni meðan EES-höftin gilda hér.
Viðskipti við gömlu stóru viðskiptalöndin verður væntanlega auðvelt að endurlífga þegar höft ESB verða afnumin. EES er í vaxandi mæli að einangra Ísland frá alþjóðaviðskiptum."
Mér sýnist að skoðanir okkar kollega Friðríks falli býsna þétt saman.Ég spyr mig hvort EES samningurinn sé ekki farinn að valda okkur meiri vandræðum en gagni og vildi gjarnan að vísustu menn drægju saman staðreyndir málsins.
Ekki bara lofsyngja samninginn í heild heldur tína til einstök atriði eins og Friðrik Daníelsson gerir afbragðsvel.