og sorgir mun hún þreyja.
Þau halla undir flatt og hylla lög
og horfa á konur deyja
Svo kveður sá forni snillingur Stefán Jónsson fréttamaður við barnið sitt um nótt.
Ástæðan er barátta barnsins við að koma þeirri lífsbjargandi uppgötvun sinni á gölluðum erfðavísi BRCA2 kvenna á framfæri við þær sem málið varðar, að þeirra líf sé í hættu ef ekki sé við brugðist.
Svar kerfisins var að dr. Kára væri óheimilt að skipta sér af því einkamáli fólks að ganga í dauðann með opin augu.
Dr. Kári Stefánsson skrifar m.a. svo í grein í Fréttablaðið í dag:
...."Stökkbreytingin er sem sagt banvæn ef ekkert er að gert. Það væri hins vegar hægt að bægja frá meiri hlutanum af þessari ógn með fyrirbyggjandi aðgerðum. Við búum svo vel að það væri auðvelt að finna flesta arfberana og þar af leiðandi hægt að nálgast þá, vara þá við ógninni og bjóða þeim aðstoð.
Í um það bil áratug hef ég árangurslaust reynt að sannfæra heilbrigðisyfirvöld um að nýta þennan möguleika. Það vaknaði hjá mér svolítil von um að þetta væri að breytast þegar heilbrigðismálaráðherra skipaði starfshóp til þess að setja saman tillögur um nýtingu erfðaupplýsinga til forvarna með sérstaka áherslu á stökkbreytinguna í BRCA2.
Starfshópurinn skilaði tillögum sínum á mánudaginn og í þeim segir skýrt og skorinort að hann telji að það væri brot á gildandi lögum að hafa samband við arfberana og vara þá við hættunni sem steðjar að lífi þeirra og ef sett yrðu ný lög sem leyfðu slíkt, brytu þau líklega í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta er furðuleg túlkun og nýstárleg og brýtur í bága við hefð í íslensku samfélagi.
Ég ætla ekki að vitna til greina eða málsgreina í lögum eða stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála þeirri skoðun minni til stuðnings, vegna þess að hún byggir á einni af grundvallarforsendum samfélags manna sem er æðri öllum lögum og hljómar svona: Þegar manneskja er í bráðri lífshættu vörum við hana við ef við getum og reynum að forða henni frá hættunni án tillits til laga eða annars nema þess sem kynni að setja fleiri líf í hættu. Það er rík hefð í íslensku samfélagi fyrir því að ganga mjög langt í því að bjarga lífi fólks án þess að það hafi lagt blessun sína yfir það fyrirfram. Til dæmis segjum við fólki frá hættunni á því að snjóflóð kunni að falla á hús þess vegna þess að heilsu og lífi þess stafar hætta af snjóflóðum og við gerum það án þess að leita samþykkis þess fyrirfram. Við göngum meira að segja svo langt að flytja fólk nauðungarflutningum úr húsum á snjóflóðasvæðum ef það neitar að fara af fúsum og frjálsum vilja. Við sendum leitarflokka eftir fólki sem kemur ekki ofan af hálendinu á tilsettum tímum. Við prentum viðvaranir á sígarettupakka sem segja að það sé lífshættulegt að reykja, án tillits til þess hvort kaupandinn vilji vita að með neyslunni sé hann að vega að sjálfum sér.
Starfshópurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ef konur séu í bráðri lífshættu af völdum stökkbreytingar í BRCA2 megi ekki vara þær við vegna þess að það vegi að friðhelgi um einkalíf þeirra. Þetta er að öllum líkindum í fyrsta sinn í sögu Íslands sem því er haldið fram að það sé ólöglegt að vara fólk við bráðri lífshættu og fáránleikinn í því er takmarkalaus.
Við byggjum landið með lögum til þess að gera líf fólks betra og öruggara. Lögin eru hugsuð sem tæki sem við notum til þess að gera líf fólks betra og öruggara. Ef túlkun starfshópsins er rétt og stjórnarskráin og lögin banna okkur að vara arfberana við bráðri lífshættu eru þau farin að vinna gegn tilgangi sínum og halda okkur frá þeim markmiðum sem þau áttu að hjálpa okkur að ná. Þau eru erindislaus og ótengd hagsmunum þess samfélags sem þau eiga að hjálpa okkur við að stjórna. Þau eru orðin einhvers konar glerperluleikur sem hefur engan tilgang annan en sjálfan sig og getur af sér alls konar hörmungar.
Það er hins vegar ljóst að túlkun manna á stjórnarskránni og lögum sem á henni byggja hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að fólk sem er í bráðri lífshættu af öðrum sökum en illvígum stökkbreytingum sé varað við. Þar af leiðandi er sá möguleiki fyrir hendi að vandinn liggi ekki í lögunum eða stjórnarskránni heldur í starfshópi heilbrigðismálaráðuneytisins...."
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra fyrir Vinstri Græna sem færir þjóðinni þessa niðurstöðu. Þegar hafa 20.000 manns lýst yfir andstöðu við niðurstöðuna sem dr. Kári hefur opnað leið fyrir á netinu.
Úr engum stjórnmálaflokki öðrum en V.G. gæti komið svona arfavitlaus niðurstaða. Skyldu kjósendur Svandísar vera vissir um að þetta sé síðasta dellan sem frá henni eða flokki hennar kemur?
Starf dr. Kára og föður hans að því að forða okkur frá rögum sálum er ómetanlegt.