Quantcast
Channel: Halldór Jónsson
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2922

Fjölmenning

$
0
0

er hugtak sem GGF tyggur hvort eftir öðru. Það talar eins og hér hafi verið samþykkt að á Íslandi eigi að ríkja fjölmenning. Eins og sú sem ríkir í Ghettóum múslíma í vestrænum löndum. Hverfi þar sem lögregla landsins fer ekki inn í. Þar sem sharía lög séu æðri innlendum.

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifað grein í Mogga um þetta mál. Þessi texti er svo einstaklega skynsamlegur um þetta efni að ég set hann hérna ef einhverjum skyldi hafa skotist yfir hann :

Jón segir:(þessi bloggari feitletrar að vild)

"

Hvað er fjölmenning? Eitthvað sem er gott? Eitthvað sem færir fólk saman og býr til betri heim, upplýstari og ríkari að menningu og góðmennsku? Í orðræðu þeirra sem nota þetta óljósa hugtak, þá virðist oft, sem fólk trúi því að fjölmenning sé af hinum góða og muni færa þróuðum ríkjum mikla blessun. Þessi huglæga þráhyggja án vitrænnar skilgreiningar hefur heltekið marga oftast á fölskum forsendum.

Ísland hefur alltaf verið fjölmenningarland í þeim skilningi að við höfum lært um siði, menningu og sögu fjarlægra þjóða og tileinkað okkur hugmyndir til framróunar í verkmenningu, listum og lögum. Við lærðum um sögu Grikklands og Róm og baráttu Voltaire og annarra heimspekinga fyrir almennum lýðréttindum. Saga Evrópu er saga fjölmenningar. Þjóðirnar lærðu hver af annarri og tóku upp það besta í lögum, hugmyndafræði og verkmenningu annarra þjóða. Fræðsla um fjarlæg lönd og menningu fór fram í skólastofum og margir heilluðust af ýmsu, sem leiddi til þess að þeir hinir sömu lögðu lönd og álfur undir farartæki og hemisóttu framandi þjóðir og kynntu sér framandi menningu og miðluðu síðan af reynslu sinni.

Sú fjölmenning sem hér er lýst er allt annað en hugtakið fjölmenning þýðir nú. Í dag byggir fjölmenning vinstri elítunar og íslömsku yfirráðahyggjunar á því að menning og gildismat nýrra minnihlutahópa sé sambærileg menningu og gildismati meirihlutans. Það þýðir að meirihlutinn getur ekki búist við því eða vænst þess að minnihlutahópurinn taki tillit til menningar meirihlutans. Það felur um leið í sér að meirihlutinn verður að þola afstöðu og gjörðir, sem meiri hlutinn hafnar eins og í tilviki Evrópu í dag hvað varðar múslima. Fjölmenningarhugmyndin í dag segir að lítilsvirðing múslima og ofbeldi gagnvart konum og virðingarleysi fyrir þeim sem aðhyllast aðrar trúarskoðanir, sé hluti fjölmenningarinnar, sem okkur beri að láta afskiptalausa. Þeir sem leyfa sér að hafa aðra skoðun eða menningu minnihlutahópsins eru sakaðir um rasisma eða hatursumræðu. Í tímans rás hefur þessi fjölmenningarhugmynd lamað skynsamlegar umræður um innflytjendamál. Þessi skilgreining fjölmenningar og vígorðið sem þetta hugtak er orðið í dag, er fjandsamlegt þjóðlegri menningu og þjóðlegum gildum.

Við sem höfnum þessari fjölmenningar skilgreiningu teljum nauðsynlegt að það sé sameiginleg menning, sem er í menntakerfinu, vinnureglum og velferðarkerfi og framkvæmd laga. Það er ekki til að refsa fólki sem er í minnihluta, heldur til að tryggja að allir geti tekið fullkominn þátt í þjóðfélaginu og séu jafnir fyrir lögunum.

Fjölmenningartrúboðum nútímans annaðhvort sést yfir þá staðreynd eða vilja ekki viðurkenna að það er stór hópur af velmenntuðu fólki sem aðhyllist Íslam og er ákveðið að troða því frumstæðasta sem þar er að finna fyrst upp á aðra múslima og síðan ef þeir geta upp á samfélagið allt. Að hafna þeirri fjölmenningu er ekki rasismi heldur heilbrigð skynsemi.

Afsökunin fyrir því að gera ekki neitt er óskin um að fá að lifa í friði óáreittur. En lífið er barátta og hver tími býður upp á ný tækifæri og nýjar ógnir. Fólk verður að vera reiðubúið til að bregðast við hvoru tveggja af einurð og skynsemi ef vel á að fara.  Nú steðjar að ógn nýrrar heildarhyggju, Íslamismans, sem verður að bregðast við. Það er áskorun sem við stöndum frammi fyrir.

Við erum rík þjóð, sem hefur tekið og tekur vel á móti fólki af mismunandi trúarbrögðum. Við erum öll jöfn fyrir lögunum og lögin verða að taka á öllum með sama hætti. Íslenskur borgari sem hvetur til glæpa eða fremur þá, á að þola refsingu án þess að trú hans eða uppruni skipti máli. Sérhvern Íslending sem reynir að grafa undan íslenska ríkinu og íslenskri þjóðmenningu ætti að ákæra fyrir landráð. Við getum ekki eftirlátið fólki að fara eftir þeim lögum sem því hentar og brjóta önnur, til að þjóna furðuhugtakinu "fjölmenning". Við bjóðum fólki úr öðru menningarlegu umhverfi velkomið til landsins, en við krefjumst þess að það aðlagist samfélaginu og fari að lögum okkar og siðum.

Góð fjölmenning er allt annað en það inntak sem lagt er í orðið fjölmenning í dag. Góð fjölmenning er sú að kynna sér menningu og siði annarra og nýta eftir föngum. Sú fjölmenning sem grefur undan siðum og reglum þjóðfélags okkar eins og fjölmenningarpostular opinberrar umræðu á ljósvaka- og öðrum fjölmiðlum boða, er fjölmenning sem leiðir til menningarlegrar uppgjafar íslensku þjóðarinnar. Þá mun þjóðin týna tungu sinni og menningu. Eru gælur við hugtakið fjölmenningu á forsendum minnihlutahópa þess virði að við glötum íslenskri þjóðmenningu og kristilegum gildum?"

Betur hefur ekki verið skrifað um fjölmenningu það ég hef séð. Ég vona að sem flestir geti tileinkað sér þessa skilgreiningu Jóns á þessu skrumskælda hugtaki sem er notað af GGF gegn okkur hinum af því að það heldur að við skiljum það ekki.

Þetta er alveg eins og þegar kommarnir reyndu að troða á okkur díalektískri efnishyggju í gamla daga með vorkunnarsvip vegna þess hve heimskir við hinir vorum. En án þess að skilja hugtakið sjálfir. Það þurfti Hannes Hólmstein Gissurarson til að greina þetta hugtak og reka ofan í þá og þá kom í ljós að þeir höfðu ekki hugmynd um hvað þetta fyrirbrigði var. Þeir höfðu aldrei lesið fræðin sem ekki var von því þau voru svo vitlaus. Þeir lásu bara kilina á bókunum meðan Hannes las allt bullið og rak það svo ofan í þá. Eftir það hættu þeir kommarnir með allt vísindabull í kring um kommúnismann sem brátt sannaði sitt rétta eðli og þeir sögðust aldrei hafa verið kommar heldur kratar.

Ég sá svo að Jón var ekki dús við textann þegar ég lýsti atburðum á Landsfundi þannig að forystan hefði gólað á þá "rasistana Jón og Gústaf Níelsson" Fannst eins og ég væri að að kalla þá þetta. Klaufalega orðað kannski en klaufalegar skilið.

Ég var bara að vísa til þess sem þetta lið kallar okkur alla sem reynum að andæfa. Mér er slétt sama sjálfum. En mér er ekki sama ef Jón verður fúll út í mig, sem skipar háborð vina minna og þykir leitt að þetta megi svona skilja.

Greinin að framan sannar það, að Jón er hvorki rasisti né fasisti heldur húmanisti af vandaðri gerð sem ber hag lands og þjóðar fyrir brjósti.Sannur Íslendingur eins og þeir eru báðir hann og Gústaf eins og þeir gerast bestir.

Fjölmenning er hugtak sem menn verða að skilja áður en þeir nota það.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2922